Skipulagsvinnan

All ítarleg undirbúningsvinna fór fram árin 2009 og 2010. Gögnum um minjar og náttúru svæðisins var safnað og þau greind með tilliti til verndar og nýtingar, þ.m.t. mögulegs bætts aðgengis að svæðinu til útivistar. Leitað var til sérfræðinga sem vel þekkja til á svæðinu s.s. hvað varðar fornleifar, búsetusögu og náttúru. Einnig hefur verið leitað álits fulltrúa Garðasóknar.

Nemendur í námskeiðinu „Byggð og samfélag” í sagnfræðideild Háskóla Íslands unnu verkefni um Garðahverfi 18. aldar undir leiðsögn doktors Hrefnu Róbertsdóttur sagnfræðings. Þau beindu athyglinni sérstaklega að þéttbýlismyndun, fjölskyldugerð, atvinnu, verslun og menningu. Nemendurnir kynntu verkefnið á fundi í Félagsheimilinu Garðaholti þann 15. apríl 2009 og var íbúum svæðisins boðið til fundarins, ásamt embættismönnum og fulltrúum Garðasóknar. Í kjölfar kynningarinnar var haldinn vinnufundur með nemendum þar sem þau sögðu nánar frá Garðaholtinu og komu með tillögur að því hvernig vinna mætti áfram að skipulagi á grunni upplýsinga frá þeim.


Haustið 2010 og veturinn 2011 var unnið að húsakönnun á skipulagssvæðinu en slíka könnun ber að vinna skv. skipulagsreglugerð þegar unnið er deiliskipulag í eldri byggð. Tilgangur hennar er að meta varðveislugildi einstakra húsa, byggðarmynsturs og byggðaheilda. Við húsakönnunina hafa íbúar á svæðinu verið heimsóttir og leitað hugmynda þeirra umáframhaldandi byggð og nýtingu á svæðinu og áherslur í framtíðarskipulagi svæðisins. Einnig hafa verið haldnir samráðsfundir með hagsmunaaðilum, s.s. forsvarsmönnum Garðakirkju.


Vinnufundur með nemendum í sagnfræði

Einföld flokkun á skipulagssvæðinu þar sem tekið er tillit til fornleifa, mannvistar og náttúru