Forsendur‎ > ‎

Saga svæðisins

Minjar við Garða sýna að umfangsmikil hjáleigubyggð með útgerð hefur þróast á þessu svæði í gegnum aldirnar. Hjáleigubyggð fór vaxandi á Íslandi á 14. öld og sjávarútvegi óx ásmegin. Útflutningur fiskafurða jókst á kostnað vaðmálsútflutnings miðalda. Talið er að hjáleigubyggðin hafi þróast hvað mest næstu 3-4 aldirnar, mest á suðvesturlandi og á Snæfellsnesi. Afkoma hjáleigubænda við ströndina byggðist mikið á fiski. Einnig voru ákveðin þurrabúðarsvæði til, auk tímabundinnar búsetu á vissum svæðum. Fólksfjölgun og nýbýlamyndun 19. aldar varð hins vegar meiri í sveitahéruðum á meðan þeim hjáleigubýlum sem algeng höfðu verið áður fór fækkandi. Eitt einkenni á hjáleigubyggð var umfangsmikið kvaðakerfi, þar sem ábúendur unnu ákveðin verk fyrir landeiganda.

Miklar minjar hafa varðveist í Garðahverfi, en það er sérstakt að svo samfellt svæði sé enn til nokkuð óhreyft ásamt strandlengjunni sem bátarnir voru gerðir út frá. Víðast hvar á suðvesturlandi hafa bæir byggst upp þar sem verstöðvarnar og byggðin var, og uppbygging hafnarmannvirkja og uppfyllinga meðfram ströndinni hafa orðið þess valdandi að fáar minjar eru enn varðveittar.

Um 1800 var því sem næst allt land sóknarinnar í eigu kirkjunnar að Görðum eða krúnunnar. Bæirnir voru flestir smáir, og jafnvel mörg heimili á hverju þeirra. Vegna nándarinnar við verslunarstaðinn í Hafnarfirði hafa félagsleg og efnahagsleg einkenni svæðisins verið talin margþættari en annars hefði verið, en Hafnarfjörður taldist til hennar á þeim tíma. Skólahald var einnig á svæðinu. Blönduð afkoma byggð á fiskveiðum og búskap var algengust í Garðahverfi, en einvörðungu var stundaður búskapur á 2 af 31 býli. Einnig voru í Garðahverfi landlausar sjómannafjölskyldur sem og lausamenn, auk iðnaðarmanna og fleiri hópa.

Helstu minjar um sjósókn í Garðahverfi, unnið upp úr fornleifaskráningu Rgnheiðar Traustadóttur og Rúnu Knútsdóttur Tetzschner

Mynjar um ræktun í Garðahverfi, byggt á loftmynd frá 1952 og fornleifaskráningu Ragnheiðar Traustadóttur og Rúnu Knútsdóttur Tetzschner
Bústaðir götur og garðalög, gögn unnin uppúr fornleifaskráningu Rgnheiðar Traustadóttur og Rúnu Knútsdóttur Tetzschner og eftir loftmynd frá 1952. Bakgrunnsmyndin er frá árinu 1952.

Horft í átt að Dysjum (mynd frá Þjóðminjasafni Íslands)

Garðalind, þangað gátu íbúar ávallt náð í vatn, því lindin þvarr aldrei.

Móakotsbrunnur í desember 2008

Garðahleðsla