Forsendur‎ > ‎

Landslag

Garðaholt rís rúmlega 30 metra yfir sjávarmál. Holtið er tiltölulega flatt og landhalli almennt lítill. Brattasti hluti holtsins er sunnan í fornu eyði eða malarási sem gengur austur úr því. Sunnan og suðaustan Garðaholts er land flatlendara og jarðvegsdýpt meiri en á holtinu sjálfu. Garðaholtið er talsvert grýtt með klöppum og klapparholtum, en austan þess liggur Búrfellshraunið. Milli hraunsins og holtsins liggur land lægra og þar hefur myndast votlendi, svokölluð Dysjamýri.

Landinu innan skipulagssvæðisins má skipta upp í nokkrar landslagseiningar:
  • Austast liggur Búrfellshraunið og rís það nokkra metra yfir landið vestan þess. Hraunið er nokkuð úfið en víða er gróðursælt í bollum og lautum. 
  • Ræktað land þekur stóran hluta skipulagssvæðisins. Austasti hluti þess, það er svæðið austan Dysja og Pálshúss, er framræst votlendi með mun þykkari jarðvegi en ræktaða landið vestar. Austast í Dysjamýrinni undir hraunjaðrinum niður við sjó er Balatjörn, en milli tjarnarinnar og sjávar er hár brattur kambur. Á framræsta landinu eru lítil merki fornleifa, en heldur meira sést annarsstaðar og þá aðallega fornir garðar. 
  • Neðan Garðakirkjugarðs er Garðamýrin. Þar liggur land örlítið lægra en umhverfið í kring, alveg niður að sjávarbakkanum. 
  • Ofan Garðamýrarinnar liggur mjó ræma af grösugu landi sem teygir sig til vesturs ofan sjávarkambsins. Þetta er eina svæðið á skipulagssvæðinu, með vel grónu þurrlendi og jarðvegi sem ekki hefur verið tekið undir ræktun. Því sjást þar víða merki um fornminjar. 
  • Vesturhluti Garðaholtsins er nokkuð vel gróinn en þar er jarðvegur mjög grunnur og land grýtt. Gamlar hleðslur og fornar tóftir einkenna þetta land, sérstaklega innan hins forna Garðatúngarðs. Utan garðsins eru fornminjar ekki eins áberandi og land ekki eins grösugt og innan hans. 
  • Efst á Garðaholti rís fallegur skógarreitur með fjölbreyttum gróðri, þar sem barrtré eru mest áberandi. Reiturinn stingur í stúf við rýrt gróðurlendið utan hans. 
  • Víða eru háir bakkar niður við fjöruna, einkum austan Garðamýrar. Á þessu svæði er talsvert strandrof þar sem ágangur sjávar brýtur land. Þetta á sérstaklega við um nesið við Bakka. Hraun sést við ströndina allt frá Dysjum í austri og vestur að Hlíð.
Skipulagssvæðinu skipt upp í landeiningar, byggt á náttúrufari og menningarminjum.

Landlíkan sem sýnir halla lands á skipulagssvæðinu


Austurhluti skipulagssvæðisins einkennist af ræktun á þykkum mýrarjarðvegi, sem hefur verið ræstur fram. Fjær sést í Búrfellshraun.Vesturhluti skipulagssvæðisins einkennist af grýttum holtum og grunnum jarðvegi með greinilegum ummerkjum hlaðinna garða og gamalla býla.


Strandlínubreytingar við Bakka, línur hnitaðar upp eftir myndum frá 1952 og 2007.