Forsendur‎ > ‎

Jarð-og berggrunnur

Berggrunnur Garðaholtsins er úr beltuðu grágrýti. Annars vegar er um að ræða venjuleg grágrýtishraun sem runnið hafa á þurru landi á hlýskeiðum á milli jökulskeiða og hins vegar bólstraberg sem myndast hefur þegar hraun rann í vatni eða undir ís á jökulskeiði. Bólstrabergslögin sjást best við ströndina neðan við Dysjar og Bakka. Víða má sjá jökulrákaðar grágrýtisklappir upp úr jarðveginum, aðallega efst á Garðaholti. Jökulrákirnar eru eftir steina sem fastir voru neðan í jökulísnum, sem þannig virkaði eins og sandpappír á undirliggjandi bergið. Af stefnu jökulrákanna má ráða rennslisstefnu jökulsins sem yfir þeim lá. Talið er að síðasta jökulskeiði hafi lokið fyrir um 10-12.000 árum. Á suðaustanverðu holtinu liggur síðan Búrfellshraun (á þessu svæði kallað Garðahraun), sem rann úr Búrfelli fyrir um 7000 árum. Búrfellið sem er í Heiðmörk, sést í fjarska í austri frá ströndinni.

Grágrýtið er víða hulið lausum jarðlögum og seti. Við ströndina fyrir neðan Garða og síðan efst austan megin á Garðaholti má sjá strandset, sem er merki um hærri sjávarstöðu fyrr á tímum, þegar jökla var að leysa. Efst á Garðaholtinu eru einnig merki um forna strandlínu sjávar.

Myndin sýnir hvernig gæti hafa verið umhorfs á höfuðborgarsvæðinu er ísöld var að ljúka og sjávarstaða var mun hærri en nú og strandlínan lá um efsta hluta Garðaholts.


Nokkuð þykkur mýrarjarðvegur liggur í lægðum á sunnanverðu holtinu við Dysjar að Búrfellshrauni og við austanverða Skógtjörn. Á þessum stöðum og víðar sést að sjávarstaða hefur einnig verið verulega lægri en hún er nú, þar sem sjórinn herjar nú á landið eins og rofbakkar við ströndina sýna. Það sést einnig á því hvernig sjávarfitjungur tekur við af mýrargróðri við Skógtjörn. Örnefnin Garðatjörn, Skógtjörn og Miðengi bera þess einnig merki, þar sem þar eru ekki lengur tjarnir og engi, heldur víkur og flóar. Sjávarstaðan hefur verið lægri fyrir um 9000 árum og enn þegar Búrfellshraunið rann, því það ber þess merki að hafa runnið á þurru landi, þar sem sjór er nú.

Grágrýtið er lekt berg, en undir mýrarjarðveginum við Dysjar og víðar er allþétt berg, setlög, sem skýrir tilvist mýrarjarðvegsins að hluta. Garðalind er neðan við Garðakirkju og leiðir Jón Jónsson jarðfræðingur líkum að því að vatnsborð hennar sýni ekki raunverulega hæð grunnvatns á svæðinu, heldur sé um að ræða falskt grunnvatnsborð sem komi fram ofan á þéttu millilag úr seti í grágrýtinu.
Berggrunnur á skipulagssvæðinu

Jarðgrunnur á skipulagssvæðinu

Lekt jarðlaga á skipulagssvæðinu. Lektin ræðst af hvers konar berg- og jarðgrunnur er á svæðinu og gróðufar ræðst siðan af stórum hluta af því hvernig lekt svæðisins er háttað.