Forsendur‎ > ‎

Gróðurfar

Gróðurfar Garðaholts er um margt líkt gróðurfari á öðrum nesjum á höfuðborgarsvæðinu (Gróðurkort NÍ).

Graslendi er ríkjandi gróðurlendi utan túna, gróðurþekjan er yfirleitt meiri en 66% en þó eru einstaka svæði með minni þekju, aðallega norðvestan í holtinu. Algengar tegundir á graslendum nesjum á höfuðborgarsvæðinu eru túnvingull, blávingull, vallarsveifgras og snarrótarpuntur, en innan um eru stinnastör, grasvíðir og krækilyng, ásamt ýmsum blómplöntum og ýmsar mosategundir eru í sverði (Innes 1985).

Engin óröskuð votlendi eru á svæðinu og flokkast þau sem hálfdeigjur. Dysjamýri er framræst og búið er að breyta mestum hluta hennar í tún, einungis er eftir lítið svæði í vesturjaðri mýrarinnar utan í Garðaholti. Lítið votlendi Garðamýri er neðan Garðakirkjugarðs, sem ekki hefur verið raskað eins mikið og Dysjamýrinni. Norðvestan við Garðaholtið er Álamýri sem nær niður að Skógtjörn. Búið er að ræsa hana fram án þess að breyta henni í tún. Grös og starir eru ríkjandi tegundir í þessum votlendum, sem bera merki um að á þeim hefur verið rakað mikið.

Búrfellshraunið er að meirihluta til vaxið mosaþembu, en vestast í því á svæðinu sem liggur að Dysjamýri, er graslendi ríkjandi.

Efst á Garðaholti er skógræktarreitur þar sem innfluttar trjátegundir eru ríkjandi, en á þeim svæðum sem ekki hefur verið plantað í virðist gróðurfarið svipað því sem er utan skógræktarreitsins. Lúpína er ríkjandi meðfram veginum yfir Garðaholt frá Álftanesvegi að Görðum og teygir sig norðvestur meðfram skógræktargirðingunni og meðfram Álftanesveginum.

Samkvæmt plöntuvefsjá Náttúrufræðistofnunar íslands eru 3 plöntutegundir á válista í reit 3559 samkvæmt reitakerfi NÍ.
Gróðurkort af skipulagssvæðinu, unnið uppúr gögnun Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ).

Graslendi er ríkjandi á skipulagssvæðinu

Skógræktarreiturinn með Reykjavík og Esjuna í baksýn